ólafur.annáll.is

AnnállPrívatStjórnmálTrú og kirkjaÝmislegt

« Byrjað upp á nýtt · Heim · Það líður að kosningum. »

Mannréttindaráð á villigötum

Ólafur Jóhann @ 13.22 17/11/10

Víða í þessari veröld eru framin alvarleg mannréttindabrot á hverjum einasta degi.   Það er löngu þekktar og jafnframt sárar staðreyndir að gríðarlegur fjöldi barna er bundinn í þrælavinnu,  að vestrænir viðskiptarisar snuði bændur og framleiðendur í fátækari ríkjum  og að víða eru  fólk hneppt í varðhald segi það skoðanir sínar sem yfirvöldum eru ekki þóknanlegar. Hér á landi eru einnig framin mjög alvarleg mannréttindabrot.  Til dæmis mansal og vændi sem er því miður eitthvað sem ekki er hægt að horfa framhjá. Það á að vera eitt af forgangsverkefnunum í samfélaginu að takast á við þessi brot af fullri hörku og af alvöru. Sem betur fer hefur vitund stjórnvalda og þjóðarinnar allrar um þessi mál aukist til mikilla muna og hafa ýmis félög og ráð  verið stofnuð til þess að stuðla að því að mannréttindi séu virt í hvívetna.  Málstaðurinn er góður og víða hefur tekist að ná mikilli bót á sviði mannúðar og mannréttinda.

Á vegum Reykjavíkurborgar er starfandi mannréttindaráð sem er ætlað að móta stefnu og taka ákvarðanir í mannréttindamálum borgarinnar.  Í síðustu viku bárust þær fréttir að meirihluti ráðsins vilji banna, á forsendum mannréttinda, að foreldrar fermingarbarna fái frí fyrir börnin sín í einn eða tvo daga á allri sinni skólagöngu til að fara í ferðalag á vegum kirkjunnar. Þó er leyfilegt að gefa stutt skólafrí af flestum öðrum ástæðum, rétt eins og foreldrar kjósa hverju sinni. Meirihluti mannréttindaráðs  vill jafnframt banna það  að prestar eða aðrir fulltrúar kirkjunnar fari í skólana til þess að segja frá því að æskulýðsfélag kirkjunnar eða annað kirkjustarf sé að hefja starfsemi sína, jafnvel þó öllum öðrum félögum og stofnunum sem standa að barna- og æskulýðsstarfi sé leyft að kynna sína starfsemi.   Að auki vill meirihluti ráðsins setja þær skýru reglur að ekki skuli kalla til prest ef andlát eða slys ber að höndum í skólastarfinu. Mér er ekki kunnugt um að í þau fjölmörgu skipti þar sem prestur hefur komið að því að styðja við nemendur vegna andláts innan skólans hafi um leið verið brotið á mannréttindum eða að það hafi skemmt nokkurn eða meitt. Hins vegar hafa margir syrgjendur notið mikillar huggunar og leiðsagnar prestsins sem hefur hjálpað þeim til að takast á við sorgina og þann dimma dal sem dauðsfallinu fylgir. Samkvæmt hugmyndum meirihluta ráðsins eru boðin og bönnin enn fleiri.  Heldur einhver í alvörunni að prestarnir séu með þessu að  framkvæma svo alvarleg mannréttindabrot að  brýnt sé að stöðva sem allra fyrst?

Kirkjan er elsta stofnun íslensks samfélags. Boðskapur hennar hefur mótað siði og venjur þjóðarinnar. Allt starf hennar miðar að því að miðla kærleiksboðskap kristinnar trúar. Barna- og æskulýðsstarfið er forvarnarstarf  þar sem lögð er áhersla á að allir þátttakendur séu  mikilvægir, framlag hvers og eins metið  og  ekki eru greidd þátttökugjöld. Maður spyr sig hvað það er  sem fær meirihluta mannréttindaráðs borgarinnar til að álykta á þann veg sem áður greinir. Má vera að það hafi áhrif að í téðum meirihluta sitji varaformaður Siðmenntar, félagsskapar sem  leggur gríðarlega áherslu á að vinna gegn útbreiðslu kirkju og kristni í samfélaginu?  Ætti mannréttindanefnd borgarinnar ekki frekar að taka sér stöðu gegn raunverulegum mannréttindabrotum? Íslenskt samfélag þarf á því að halda nú sem áður fyrr að öllu góðu starfi sem stuðlar að jákvæðni og kærleika sé haldið á lofti. Það skulum við gera hér eftir sem hingað til!

Birtist í Breiðholtsblaðinu og tru.is í október.

url: http://olafur.annall.is/2010-11-17/mannrettindarad-a-villigotum/

© ólafur.annáll.is · Færslur · Ummæli