ólafur.annáll.is

AnnállPrívatStjórnmálTrú og kirkjaÝmislegt

« Goslokamessa í Seljakirkju · Heim · Byrjað upp á nýtt »

Þökkum góðum Guði á goslokaafmæli

Ólafur Jóhann @ 18.43 14/7/08

Það var góð þátttaka í goslokamessu Eyjamanna í Seljakirkju í síðustu viku. Ég læt hér fylgja prédikun dagsins.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni. Amen.
„Ó Guð vors lands, vér lofum þitt heilaga nafn. Þetta er sá strengur, sem ómar dýpst í þjóðarbarmi á hinum mestu stundum. Svo skyldi einnig vera nú, þegar vér höfum lifað einn hinn hrikalegasta atburð, sem orðið hefur í sögu landsins, án þess að tjón hafi orðið á lífi eða limum nokkurs manns.”

Þannig hófst ávarpið sem herra Sigurbjörn Einarsson, biskup flutti íslensku þjóðinni eftir að eldgos var hafið á Heimaey og undir þessi orð getum við sannarlega tekið enn þann dag í þegar 35 ár eru liðin frá því að gosi lauk á Heimaey.
Það velkist enginn í vafa um að þær náttúruhamfarir sem Eyjamenn vöknuðu við aðfaranótt 23. Janúar 1973, voru ein af þeim hrikalegustu sem orðið hafa í sögu lands og þjóðar. Sprungan sem myndast hafði á Heimaey, og hinn þrjátíumetra hái eldstrókur með tilheyrandi drunum var það sem vakti Eyjamenn með heldur harkalegum hætti rétt fyrir kl. 2 þessa örlagaríku nótt. Ekki var annað að gera en bjarga sér og sínum og halda niður á höfn, þar sem nánast allur flotinn lá við bryggju. Allt var skilið eftir og enginn gat vitað hvort eða hvenær hægt yrði að snúa til baka. Sumir hafa væntanlega gert sér það í hugarlund á þessari stundu að aldrei yrði snúið aftur og byggð myndi leggjast af á eyjunni fögru. Við getum aldrei gert lítið úr þeirri átakanlegu lífsreynslu sem fólk upplifði þessa nótt, þar sem sumir yfirgáfu heimili sín fyrir fullt og allt.

En engu að síður er gaman að rifja upp skemmtilegar sögur af ýmsum skondnum viðbrögðum Eyjamanna við gosinu, eins og þekktu sögunni af honum Boga heitnum í Eyjabúð. Eitthvað var hann seinn að frétta af gosinu og snemma morguns var hringt heim til hans og Bogi svaraði. Þegar hringjarinn sagði óðamála að það væri komið gos sló Bogi á létta strengi og svaraði í rólegheitum: Jæja vinur, það er gott, settu það bara á tröppurnar.

Þau voru öllu meiri viðbrögðin hjá manninum sem dreif sig í svo miklum flýti niður að höfn að eina sem hann tók með sér var kjöthleifur og annar var sá sem gleymdi konunni heima í öllum flýtinum en mundi eftir bankabókinni.

Á þessari stundu getum við leyft okkar að brosa þegar við heyrum þessar frásagnir vegna þess að við erum hingað komin til þess að þakka en ekki til að minnast. Við þökkum góðum Guði fyrir að hafa haldið verndarhendi sinni yfir Eyjunum þessa nótt. Eflt í Eyjamönnum kjark og dug til þess að takast á við óblíð náttúruöflin og gefið það að aðstæður þessa nótt voru með þeim hætti að allir höfðu tök á að bjarga sér á fasta landið. Fasta landsmenn tóku hlýlega á móti Eyjamönnum er þeir komu í neyð sinni, samtakamáttur þjóðarinnar var þá sem endranær mikill. En þrátt fyrir að byggðin breyttist og margir sneru aldrei til baka, eða hafa enn ekki flutt, að þá er það staðreynd að algóður skaparinn vakti yfir Eyjamönnum þessa nótt sem aðrar.

Sumir vilja þó frekar þakka tilviljunum heldur en góðum Guði hversu örlögin léku Eyjamenn blítt og að allt fór eins og það fór. Telja það tilviljun að flotinn hafi allur verið í höfn og í stakk búinn til ferja fólk yfir, að það hafi verið tilviljun að vindátt hafi verið af vestri en ekki austri, það hafi verið tilviljun að jarðsprungan hafi ekki opnast nokkur hundruð metrum vestar en raunin varð.
Um allar aldir hafa raunar þær raddir alltaf ómað að útskýra þurfi með rökfræði og raunvísindum hvort og hvernig íhlutun Guðs og máttur hefur birst mönnum í gegnum aldirnar. Skemmst er að minnast þess að fyrir tveimur árum kom bandarískur haffræðiprófessor með þá tilgátu að frásögn guðspjallanna af því þegar Jesús gekk á vatninu væri ekki svo sérstæð, því allt eins væri líklegt að vatnið hefði verið ísilagt á þeim tíma. Ekki hafði þó haffræðiprófessorinn tilgátu um hvernig lærisveinarnir gátu róið á litlum árabát í gegnum þennan mannhelda ís eða hvers vegna Pétur tók að sökkva þegar ótti kom að honum, það er vart sannfærandi skýring að ísinn hafi gefið sig undan honum.

Í gegnum allar aldir hefur þetta verið tilhneiging ákveðinna hópa, til þess að styrkja efa sinn í trúnni, og reyna að finna einhvern raunvísindalegan grundvöll til þess að byggja skoðun sína á. Og í þessu samhengi hafa margir þá trú að heimurinn hafi orðið fyrir tilviljun, lífið sjálft, já ég og þú!

Í huga kristins manns er lífið miklu stærra og dýrmætara en einhver einstök tilviljun. Í kristinni trú er sú sannfæring lifandi að lífið er Guðs gjöf sem okkur ber að fara vel með og varðveita. Lífið er ekki síður dýrmætt í augum lífgjafans, það finnum hvað sterkast þegar hann kemur með sína sterku hendi og bjargar og blessar eins og í þeim aðstæðum sem sköpuðust allan þann tíma er gaus í Heimaey.

Já, þess vegna er það náð að eiga Jesú sem einkavin í hverri þraut. Og það er mikil heill að mega halla höfði sínu í Drottins skaut. Það vita þeir sem reynt hafa. Og í gegnum frásagnir guðspjalla sjáum við aftur og aftur þá staðreynd að Jesúsvar svo gríðarlega annt um hag mannsins barna, studdi þau í neyð sinni og gaf þeim styrk til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann kenndi mönnum mikilvægar lífsreglur til þess að lifa góðu og innihaldsríku lífi og ekki nóg með það, hann hét því að hann yrði með börnum sínum allt til enda veraldarinnar.

Í guðspjalli þessa dags er þetta kærleiksstef svo ríkjandi. Mönnum sárhungraði eftir langan dag í sól og hita, fjarri allri mannabyggð. Enginn hafði verið svo fyrirhyggjusamur að smyrja með sér nesti nema drengurinn litli sem vel var fús til þess að fórna nesti sínu, en vissi sem von var að það fiskarnir tveir og brauðin fimm myndu duga skammt handa öllum þeim fjölda.
En Jesús sýndi það að með hans hjálp er hægt að gera mikið úr litlu. Sagan er ekki bara að segja frá kraftaverki eða mætti Jesú, heldur ekki síður frá þeirri umhyggju Krists fyrir mönnum sem kennir okkur um leið að við eigum ekki að gefast upp þó okkur finnist við lítið hafa fram að færa, eins og drengurinn litli, eða gefast upp gagnvart erfiðum aðstæðum, heldur treysta því og trúa að hann er með okkur í lífi og starfi.

Og þannig var það nákvæmlega þegar menn tókust á við eldgosið í Eyjum. Í samhengi náttúrunnar er maðurinn ósköp lítill. Þá tilfinningu höfum við sjálfsagt öll einhvern tímann fundið. Ég hef heyrt það í spjalli mínu við menn sem tókust á við Heimeyjargosið, ber þeim flestum saman um að þeim hafi fundist þeir verið vanmáttugir gagnvart því verkefni sem þeir voru að sinna, allt það sem gert var, var einhvers konar vonlítið haldreipi, meira svona til þess fallið að sýna þann vestmanneyska hugsunarhátt að ekki yrði gefist upp fyrr en í fulla hnefana.

Með þann vonarneista og visku var mörgu hægt að bjarga sem annars hefði glatast. Lífæðinni, höfninni var bjargað með því að kæla hraunið og hægja þannig á hraunstraumnum, varnarvirki voru reist er hraunstrauminn tók að renna í átt að bænum, gríðarlegur mokstur af húsum svo að þök féllu ekki með tilheyrandi eyðileggingu og svo mætti lengi telja. Lengi vel var vonin lítil og á stundum þótti sumum vinnan allt að því tilgangslaus. En aldrei var gefist upp og svo var það 3. júlí sem þau gleðitíðindi bárust út að gosinu væri nú endanlega lokið. Með Guðs hjálp og góðra manna var hægt að snúa aftur til Eyja og byggðin tók á sig mynd á ný.

Og nú eru 35 ár síðan og allir þeir sem upplifðu þessa nótt munu henni aldrei gleyma. Og það er gríðarlega mikilvægt atburðir þessa tíma og sú saga sem þeim fylgir þarf að vera lifandi hjá komandi kynslóðum. Því eins og Herra Sigurbjörn sagði svo réttilega, þetta er einn hrikalegasti atburður í sögu lands okkar. Miðlum því sögunni áfram, segjum frá atburðunum, þeim samtakamætti sem einkenndi allt og alla, en síðast en ekki síst þeirri góðu Guðs hjálp sem Eyjamenn nutu á þessum erfiðu tímum.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

url: http://olafur.annall.is/2008-07-14/thokkum-godum-gudi-a-golsokaafmaeli/

© ólafur.annáll.is · Færslur · Ummæli